FRAMKVÆMDASTJÓRI VIRK FÆR STJÓRNVÍSIVERÐLAUN

Framkvæmdastjóri VIRK, Vigdís Jónsdóttir, hlaut viðurkenningu Stjórnvísis 2015 sem besti yfirstjórnandinn en Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands afhenti verðlaunin.

Í rökstuðningi Stjórnvísi segir m.a. að árangur og ávinningur af starfsemi VIRK, sem stofnað var árið 2008, sé mjög mikill þar sem það hefur á undanförnum árum skilað þúsundum einstaklinga í virka þátttöku á vinnumarkaði. Þá er Vigdísi lýst sem leiðtoga með skýra framtíðarsýn og markmið og sem skapi vinnuumhverfi þar sem hver einstaklingur fái að nýta hæfileika sína til fulls.

Í ræðu sinni sagði Vigdís m.a. vera stolt af VIRK og að það hafi verið mikil forréttindi að hafa fengið að byggja starfsemina upp og vinna með öllu þessu góða fólki. „Árangur VIRK má hins vegar þakka öllu því frábæra fólki sem komið hefur að þessu starfi, starfsmönnum, stjórn, ráðgjöfum og öðrum samstarfsaðilum. Starfsendurhæfing snýst um samvinnu fjölmargra aðila í ákaflega flóknum aðstæðum.“ sagði Vigdís.

VIRK - Starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignastofnun sem var upphaflega stofnuð af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í maí 2008.  Í janúar 2009 var síðan undirrituð ný stofnskrá sjóðsins með aðkomu stéttarfélaga og atvinnurekenda á opinberum vinnumarkaði. Sjóðurinn byggir á samkomulagi um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar í kjarasamningum á vinnumarkaði á árinu 2008


Til baka