Í hádeginu í gær var undirritaður stofnanasamningur Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða við Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur. Samningurinn byggir á kjarasamningi ríkisins við Starfsgreinasambandið sem undirritaður var 6. mars 2020.
Samningurinn tekur til 107 starfsmanna stofnunarinnar á öllum starfsstöðvum. Flest störfin eru í aðhlynningu á hjúkrunarheimilum, við ræstingu og í eldhúsum.
Veruleg kjarabót er fólgin í samningnum sem er afturvirk til fyrsta janúar. Þeim sem voru á lægstu launum er tryggð mesta hækkunin í krónum talið. Allir skulu að lágmarki hafa hækkað um 90.000 krónur 1. janúar 2022.
Annars er helsta nýmælið vörpun í nýja launatöflu, sem byggir bæði á flokkum og þrepum, en eldri launatafla var einungis með flokka. Vörpunin gerði samningagerðina talsvert flókna, en einfaldar launaröðun til framtíðar og auðveldar samanburð við önnur stéttarfélög.
„Samstarfið við stéttarfélögin hefur gengið vel þrátt fyrir tímafreka útreikninga,“ segir Hanna Þóra Hauksdóttir mannauðsstjóri sem leiddi samninganefnd Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Formenn Verk Vest og VSB taka undir orð Hönnu Þóru en bæta við að samningaferlið hafi verið flóknara vegna yfirfærslu í nýja launatöflu. Þegar upp er staðið þá tryggi nýr samningur starfsfólkinu á „gólfinu“ verulegar kjarabætur á samningstímanum sem er einmitt helsta markmið samningsins.