Eftir árangurslausar viðræður við SFS um endurnýjun kjarasamninga sjómanna frá því að samningarnir losnuðu þann 1. desember 2019 til febrúar 2021 var ákveðið að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara í von um að eitthvað færi að ganga í viðræðunum. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara með bréfi dags. 17. febrúar 2021.

Helstu kröfur sjómanna voru hækkun kauptryggingar og kaupliða hjá sjómönnum til jafns við hækkanir skv. lífskjarasamningnum sem samið var um á almenna vinnumarkaðnum, fiskverðsmál, aukið mótframlag í lífeyrissjóð og fleira er snýr að réttindamálum og lagfæringum á samningnum til að gera hann einfaldari og auðskildari fyrir þá sem eiga að vinna eftir honum.

Nú hafa verið haldnir yfir 20 fundir hjá ríkissáttasemjara og á fundi þann 6. september síðastliðinn slitnaði upp úr viðræðunum þar sem of mikið ber í milli aðila. Helst strandar á að útgerðarmenn eru ekki tilbúnir til að auka mótframlagið í lífeyrissjóði sjómanna um 3,5% stig nema fá þann kostnað að fullu bættan og rúmlega það með auknum álögum á sjómenn með meiri þátttöku þeirra í ýmsum kostnaði útgerðarinnar. Sem dæmi hefur SFS ítrekað reynt að fá sjómenn til að samþykkja lækkun á hlutaskiptunum, samþykkja þátttöku í veiðigjöldum útgerðarinnar, samþykkja aukna þátttöku í kostnaði vegna slysatryggingar sjómanna og að samþykkja nýtt ákvæði um afslátt af skiptahlut vegna nýrra skipa. Þetta hafa þeir viljað fá gegn því að auka framlag útgerðarinnar í lífeyrissjóð sjómanna.

Helstu atriði síðasta tilboðs útgerðarinnar til sjómanna var að hækka kauptryggingu og kaupliði um aðeins tæpan helming af því sem samið var um á almenna vinnumarkaðnum, aukið framlag í lífeyrissjóð kæmi til sjómanna í 7 þrepum, 0,5% stig á ári frá undirritun samnings og að samningstíminn yrði 12 ár. Gegn þessu fóru þeir fram á að þátttaka sjómanna í kostnaði við slysatrygginguna hækkað á samningstímanum þannig að sjómenn greiddu þriðjung iðgjaldsins og að útgerðin fengi 10% afslátt á aflahlutum í fjögur ár fyrir ný skip. Auk þess yrði frystiálag á nýjum frystitogurum lækkað varanlega úr 7% í 5%.

Þessum tillögum SFS höfnuðu fulltrúar sjómanna að sjálfsögðu.

Aðilar hafa verið sammála um að afnema olíuverðstenginguna og skipta úr heildar verðmætinu. Sjómenn buðu að skiptaprósentur yrðu reiknaðar niður m.v. 70% samhliða afnámi olíuverðsviðmiðunarinnar á móti auknu framlagi útgerðarinnar í lífeyrissjóðinn. Útgerðin hefur ekki fallist á það og vill meira eins og hér hefur komið fram. Jafnframt hafa sjómenn boðið 6 ára samning, en vilja að sjálfsögðu leiðrétta kauptrygginguna og hækka hana til jafns við almennar launahækkanir í landinu og tryggja að á samningstímanum hækki kauptryggingin í takt við launahækkanir á almenna vinnumarkaðnum.

Þokast hefur í samkomulagsátt varðandi að breyta stærðarviðmiðun báta í kjarasamningnum úr brúttórúmlestum í skráningarlengd, en eins og menn vita er hætt að mæla ný skip og skip sem hafa farið í breytingar í brúttórúmlestum og veldur þetta vandamálum varðandi hvaða skiptaprósentur eiga að gilda fyrir þessa báta í hinum ýmsu veiðigreinum. Samkvæmt kjarasamningi á útgerðin að kaupa þessa mælingu, en gerir ekki enda kostar slík mæling mikið. Jafnframt hefur þokast í samkomulagsátt varðandi styrkingu á Verðlagsstofu skiptaverðs og lagfæringar varðandi verðlagningu á uppsjávarfiski.

Viðræður um endurnýjun kjarasamnings sjómanna hafa nú siglt í strand vegna kröfu útgerðarinnar um að sjómenn taki á sig meiri kostnað en ávinningur þeirra yrði með undirritun samnings á forsendum útgerðarinnar. Í yfirlýsingu frá útgerðinni segir að ef fallist yrði á kröfur sjómanna hlypi kostnaður útgerðarinnar á milljörðum árlega. Þetta er rangt. Á móti stærsta kostnaðarliðnum, auknu mótframlagi útgerðarinnar í lífeyrissjóð, hafa sjómenn boðið ýmislegt sem kemur útgerðinni til góða. Má þar nefna afnám olíuverðsviðmiðunar og 6 ára samningstíma. Auk þess er rétt að fram komi að í kjarasamningum á almenna markaðnum um jöfnun lífeyrisréttinda var gert samkomulag við stjórnvöld um lækkun tryggingagjalds á atvinnureksturinn til að létta fyrirtækjunum að mæta hækkuðu mótframlagi í lífeyrissjóð sem samið var um á árinu 2016. Útgerðin fékk lækkunina eins og annar atvinnurekstur á Íslandi en hefur ekkert lagt á móti til lífeyrismála sjómanna. Að lokum má nefna að með breytingu á stærðarviðmiði skipa sparar útgerðin sér kostnað við að láta mæla skipin í brúttórúmlestum. Allt það hagræði sem útgerðin fengi með því að ganga að tilboði sjómanna virða þeir einskis enda markmið þeirra að lækka laun sjómanna í yfirstandandi kjaraviðræðum.

Segja má að afstaða SFS sé verulega dapurleg og mikil vonbrigði í ljósi þeirra leiða sem samtök sjómanna hafa lagt fram til lausnar kjaradeilunni.